top of page
Search
Writer's pictureAnnska Ólafsdóttir

Af hinu andlega lífi

Strangt til tekið er verkefni mínu að skrifa daglega í nóvembermánuði lokið, þar sem desember heilsaði okkur í dag. Ég er þó ekki búin með 30 dagbækur þar sem nóvembermánuður var hafinn þegar ég byrjaði að blogga. Svo í dag er færsla númer 28 í röðinni. Ég er ekki búin að taka saman nákvæman orðafjölda en markið var sett á 30.000 orð og þar sem ég er alltaf alveg í kringum 1000 orðin þá lítur út fyrir að það náist.


Desembermánuður er hafinn með öllum sínum krúsídúllum. Ég er dauðþreytt og ætti að vera farin upp með börnin, en þar sem mig grunar sterklega að ég sofni við þann gjörning ætla ég að henda einhverju hér inn áður en ég fer upp.


Ég fór á blót ásatrúarfólks hér á svæðinu í dag. Ég er skráð í ásatrúarfélagið og var eitt sinn komin á fremsta hlunn við að taka við keflinu sem Vestfirðingagoði, en hann Elfar Logi hefur nú tekið við því kefli og eins og hans er von og vísa leysir hann það starf listavel úr hendi. Ástæða þess að ég dró mig út á sínum tíma er að ég upplifði að ég gæti ekki gert þetta. Í hvert sinn sem ég hugsaði um að vera með athöfn mætti ég sterku Nei-i hjá mér. Mér fannst það satt að segja fremur undarlegt, þar sem mér finnst hinar heiðnu athafnir allar einstaklega fallegar og innihaldsríkar. Við nánari sjálfsskoðun kom í ljós að mér fannst ég ekki hafa heilindin til að bera sem mér finnst þurfa til að taka við hlutverki sem þessu, því ég væri í raun á vissan hátt að taka við hlutverki trúarleiðtoga. Þegar ég skrifa þetta get ég ekki varist því að hugsa hvað orðið trúarleiðtogi hefur áfasta neikvæða skírskotun, en ég er að tala um þetta í besta skilningi þess. Aðili sem er fulltrúi trúar sinnar og leiðir athafnir fyrir þá sem aðhyllast hana líka. Mér fannst ég einfaldlega of trúlaus og of leitandi til að geta gert þetta samvisku minnar vegna.


Ásatrúin finnst mér samt dásamleg og það er ansi margt sem rúmast innan hennar. Það er ekki svo klippt og skorið hver heimsmynd þeirra þarf að vera sem aðhyllast hana, í raun nánast hvað sem er í trúarlegum skilningi þó flestir byggi þann skilning að einhverju leyti í það minnsta á þeim boðskap sem fyrirfinnst í Eddukvæðunum. Samt er ekkert verið að vasast í því hvernig trúarlíf einstaklinga þar inni er. Engar sérstakar kennisetningar, heldur meira lífs- eða siðareglur. Mér fannst þær og finnst enn sérlega fallegar. Til dæmis að bera virðingu fyrir öllu lífi og allt líf á jörðinni sé jafn rétthátt, áherslan sem lögð er á friðarhugsjónina, umburðarlyndi, drengskap, heiðarleika og síðast en ekki síst hugmyndirnar um ábyrgð einstaklinga á orðum sínum og gjörðum. Ég er líka svo hrifin af hringrásarhugmyndum og heimi heiðingja.


Athafnirnar snerta djúpar taugar í mér. Að vera utandyra og saman í hring yfir eldi hreyfir við einhverju mjög frumstæðu í mér. Ég hugsa að þetta lifi í gegnum kynslóðirnar, að genin í okkur beri minni um þetta langt, langt aftur. Goðin eiga svo öll einhverja krafta sem við getum ákallað þegar við þörfnumst þeirra með. Ég er sjálf hrifnust af Óðni, visku hans og margbreytileika. Ég hef samt aldrei skynjað goðafræðina sem slíka sterkt andlega.



Nú er sá tími árs að renna í garð þar sem fólk sækist einna mest í huggun í trú sinni, hver sem hún kann að vera. Brátt renna upp hvort tveggja hin heiðnu jól og hin kristna hátíð sem ber sama nafn hér á landi þar sem fæðingu Krists er fagnað. Á þessum tíma er þörfin fyrir því að hverfa inn á við og leita háleitari gilda í hámarki og á þessum tíma söknum við líka yfirleitt mest þeirra sem gengið hafa lífsveginn á enda.


Þrátt fyrir að þekkja ekki neinn í nærumhverfinu og nútímanum sem veltir eins mikið fyrir sér tilgangi lífsins og trúmálum og hvernig þessir tveir hlutir skarast og mig sjálfa, sé ég samt hvernig þetta er akkúrat tíminn sem fólk gefur þessu einna mestan gaum. Það á bæði við þá sem leita trúar og líka þá sem eiga hana, þar sem þeir virðast oft í desember tengjast trú sinni sterkari böndum. Ég er svo sem ekki með neinar rannsóknir til að bakka upp það sem ég er að segja en þetta er svona tilfinningin eftir að hafa lifað þau ár sem ég hef gert.


Sumir vina minna hafa lítinn skilning á þessu trúarbrölti mínu og þessar þrá að finna einhverskonar trú. Ég er ekki að segja að ég mæti neinum fordómum eða skömmum fyrir það – alls ekki, en margir virðast hinsvegar bara fyllilega sáttir í sínu trúleysi. Mér finnst það alveg frábært að fólk geti í alvörunni fundið djúpan frið þar. Í raun finnst mér það aðdáunarvert. Ég er ekki þar. Ég er samt alveg róleg í svipinn og fæ lífsfyllingu út úr lífi mínu frá degi til dags. En stundum engist ég um í trúarþörf sem tekur hraustlega yfir tilvist mína mesta. Þá óska ég þess að hafa fæðst á öldum áður þar sem það var tæplega val um heimsmynd, eða trúleysi. Allt svo klippt og skorið og mannsandinn þjálfaður inn í hugmyndakerfi sem hann sjálfur hafði minnst með að gera. Svo átta ég mig að manneskjur hafa alltaf verið og munu alltaf vera manneskjur, með þá eiginleika og það sálarlíf sem því fylgir. Kannski var lífið einfaldara fyrir einhverja, og flóknara fyrir marga.


Það er þannig að þegar fólk hefur mikið misst þá hefur það ríkari þörf fyrir trú og trúarlegan skilning á lífinu heldur en þeir sem hafa fetað lífsveginn án teljandi skakkafalla. Hér á landi hefur alþýðutrúin huggað marga syrgjendur, sem fremur halla sér að því að þeir séu hjá þeim áfram í einhverri mynd heldur en í hörpuspili á himnum. Við Íslendingar höfum verið svo miklir trúarblendingar, sem ég vil meina að hafi talsvert að gera með það að hafa ákveðið á sínum tíma að mega blóta á laun. Það hefur síður en svo dregið úr slíkum trúarhræringi í hinum vestræna heimi, þar sem hann hefur sótt í sig veðrið svo um munar síðustu áratugi. Það er mikið fjallað um hvernig trú eigi undir högg að sækja og tölurnar um það eru frekar sláandi, en þarna er yfirleitt verið að vísa til þess hvernig dregið hefur úr skipulagðri trúariðkun innan trúfélaga og þátttaka (meðlimafjöldi) í þeim. Það er ekki það sama og fólk hafi hafnað hinu andlega lífi sem trúmál hafa í gegnum aldirnar gefið fólki, því fleiri og fleiri aðhyllast persónubundið andlegt líf, þar sem það setur sjálft saman það trúarkerfi sem því fellur best í geð. Það er nefnilega þannig að einn hluti okkar er andlegur og við þurfum að finna leiðir til að næra þá hlið hvernig sem hvert okkar gerir það.


Þar sem guðsleitin hefur verið mjög fyrirferðamikil í opinberri umræðu lífs míns í mörg ár, hafði ég smá áhyggjur af því að Töfradagbókin yrði yfirfull af þeim vangaveltum, svona óvart, en ég hef ekki mikið verið að velta þessu fyrir mér síðasta mánuð. Ég veit samt að þegar að kemur lengra inn í desember og dánardagur mömmu kemur upp og þessi tími sem við áttum svo fallegan saman frumfjölskyldan þá á eflaust eftir að sækja að mér hugsanir um tilganginn, guð og eftirlífið. Það er viðbúið.


Töfrar dagsins er ríkulegt andlegt líf. Hvernig sem þið nálgist ykkar. Ég næri andann á ýmsan hátt þó ekki sé guðsmyndinni fyrir að fara. Núna er það mest í gegnum samvistir við ástvini og stundir úti í náttúrunni. Þá hef ég líka verið að styrkja sambandið við þá hlið mína sem hugsar á hástemmdari nótum og leitar fegurðarinnar og töfranna – það er líka andleg iðja.

22 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page