Ég algjörlega elska aðventuna! Mér finnst yndislegt að snuddast og snattast í jólastússi. Gera fallegt heima við, baka, gera piparkökuhús, hlusta á jólalög og svo allar ólíku samverustundirnar og viðburðirnir sem eru í aðdraganda jólanna. Þetta er auðvitað misjafnt eftir því hversu mikið er í gangi hverju sinni og hversu mikil orka er á tanknum, en tilfinningin fyrir þessum árstíma er nánast án undantekninga góð. Jólin eru uppáhalds hátíðin mín og ber hún í innra tilfinningamati höfuð og herðar yfir aðrar hátíðir. Það er svo sérstakur nærandi innri hlýleiki tengdur jólunum og aðventunni. Ég held í alvörunni að ég hafi ekki átt kost á öðru en verða mikið jólabarn þar sem ég var alin upp af jóladrottningunni Sjöfn Sölvadóttur. Mamma var einstakt jólabarn og það jókst bara með árunum. Eftir því sem þau liðu bætti hún sífellt við í jólasafn handgerðra muna úr eigin smiðju og var það orðið þannig að nánast hverjum hlut á heimilinu var skipt út fyrir eitthvað jóla. Sjálfur Clark Griswold hefði orðið feiminn.
Mamma var ekkert sérstaklega sterk í því að setja fólki stólinn fyrir dyrnar. Það var alltaf mikil drykkja á heimilinu. Fyrst aðallega pabbi, en með árunum sótti mamma í sig veðrið í þeim efnum. Mamma var þó með mjög skýrar reglur þegar kom að jólunum. Heima hjá okkur mátti ekki drekka á aðfangadag og jóladag. Pabbi vissi að mömmu var alvara með þessum reglum og hélt sig á mottunni, ef undan eru skilin ein jól. Fjölskyldumyndirnar frá þeim jólum eru úrvalsefni í handbók um meðvirkni og alkahólisma. Mjög svo grátbroslegar. Ef frá er talið þetta eina hliðarspor voru jólin kærleiksríkur og skemmtilegur tími.
Sumt er ótrúlega fyndið og skemmtilegt í minningunni. Einu sinni var reynt að hafa rjúpur, en þetta var í bæði fyrsta og síðasta sinn sem slíkur fugl var matreiddur á okkar bæ – fullkomlega óætur. Smá skúffelsi, en það fór enginn svangur frá matarborðinu, því í eftirrétt á aðfangadag var iðulega jólagrautur. Ég var mikill aðdáandi mjólkurgrauta yfirleitt, en jólagrauturinn var alltaf sérstakt lostæti. Hann var soðinn yfir allan daginn, og var á endanum flauelsmjúk rjómakennd kássa með rúsínum að ógleymdri einni möndlu. Ég frétti ekki af ris a la mande fyrr en ég varð fullorðin skal ég segja ykkur. Grauturinn var soðinn í stórum potti með blómamynstri og appelsínugulu loki og magnið hefði dugað í jólakvöldverðinn í Hjálpræðishernum. Yfirleitt kom mandlan í ljós í fyrsta hring og var mesta sportið að fela hana í það minnsta eina umferð enn. Svo bar það við ein jólin að ekkert bólaði á möndlunni. Allir voru auðvitað með pabba grunaðan um að vera með hana í leynum undir fölsku tönnunum, en enginn lét neitt uppi. Á endanum voru allir búnir að éta grjónagraut í slíku magni að þeir voru farnir að grenja, en mandlan kom aldrei í leitirnar. Mamma var með vissa kenningu á lofti um hvað hefði gerst. Ekki að einhver hefði bara étið möndluna í græðgi sinni. Nei. Möndlur voru aldrei notaðar í neitt annað en í jólagrautinn – ein mandla. Svo mamma sagði að mandlan hefði aldurs síns vegna leysts upp í frumeindir í grautnum.
Fleiri jólasögur. Auðvitað var stundum stress í kringum jólin, þó við krakkarnir höfum ekki verið þess neitt sérlega áskynja. Fjölskylda mömmu bjó nánast öll hér fyrir vestan þegar ég var barn og þá tók ekki neina þrjá daga að senda póst á milli staða. Mamma hafði verið frekar sein með gjafirnar, en á endanum var þetta allt komið og pakkarnir biðu í stofunni eftir að fara á pósthúsið næsta dag. Ég hef áður minnst á hversu árrisul ég var sem barn, en málið var að ég var ein um það í fjölskyldunni. Greinilega hafði ég morguninn eftir vaknað fyrst sem endranær og þegar mamma kom á fætur einhverju seinna blasti við henni hryllingssýn í stofunni. Ég hafði gert mér lítið fyrir og opnað hverja einustu jólagjöf. Ekki nóg með það. Ég hafði opnað púsluspilin sem frændsystkini mín áttu að fá og blandað þeim öllum saman. Síðan hafði ég opnað konfektkassana sem eitthvað af fullorðna fólkinu átti að fá. Ég hafði gert mér einhverja molana að góðu, en þeir sem mér líkaði ekki hafði ég spýtt út úr mér víðsvegar um stofuna. Mamma hló oft að þessari minningu, en þennan ágæta desembermorgun á áttunda áratug síðustu aldar var henni alls alls ekki hlátur í huga. Mamma sagði að þetta hefði verið í eina skiptið í lífinu sem hún hefði látið sér dreyma um að rassskella mig duglega – með naglaspýtu (ég bætti þessu síðasta við).
Ég ætlaði bara að skrifa um aðventuna en missti mig í að skrifa um jólaminningar. Fingurnir tóku af mér völdin á lyklaborðinu og núna hef ég ekki tíma í að skrifa meir, það sem ég er á leiðinni út. En af aðventu fréttum á Hlíðarveginum er það að frétta að hér eru allir gluggar að verða hreinir og fínir með fallegu jólaljósunum lýsandi inn til okkar og út til hinna. Svo dásamleg tvöfold virkni. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd fá flestir litir að njóta sín hjá okkur þetta árið. Marglitt, uppi, rautt í borðstofunni og jólastjörnurnar fallegu í stofunni.
Töfrar dagsins er þessi töfratími sem nú er genginn í garð. Ég af einlægni óska ykkur ljúfra stunda á aðventunni. Megi hún veita hlýju í hjartað og skapa fallegar stundir sem svo umbreytast í fallegar minningar.
Comments