top of page
Search
Writer's pictureAnnska Ólafsdóttir

Að eiga rödd

Það er ótrúlegt vald fólgið í því að eiga rödd og láta hana heyrast. Það eru svo margar leiðir sem við höfum til að láta heyra í okkur og er til að mynda er hverskonar sköpun leið til tjáningar. Ég veit að flestir sem koma úr einhverskonar beygluðum bakgrunni eiga oft í erfiðleikum með að láta rödd sína heyrast og þeir þeirra sem hafa náð á því tökum að láta röddina óma finnst hún stundum full hávær. Þetta getur verið vandrataður vegur. Hvenær eigum við að tjá okkur og hvernig? Mitt í því að reyna að finna rödd okkar dynja á okkur allskonar skilaboð eins og að það borgi sig að láta heyra í sér, eða það borgi sig að vera orðvar, það séu hlutir sem samfélagslega er samþykkt að tjá sig um og það séu hlutir sem eru það ekki. Hvað haldið þið til dæmis að fólk sem stigið hefur fram og tjáð sig um kynferðisofbeldi hafi mátt þola og dettur mér þá strax í hug Sigrún Pálína Ingvarsdóttir sem varð hreinlega landflótta við að beita röddinni sinni og sama má segja um Hörð Torfason er hann steig fram sem samkynhneigður karlmaður. Það getur sannarlega verið áhættusamt að láta rödd sína heyrast með afgerandi hætti. En síðan er það hin skynjaða áhætta þess sem á kæfða rödd. Þegar það virðist stórkostlega varasamt að segjast frekar vilja súpu en salat, frekar ganga í buxum en pilsi, frekar kjósa hitt en þetta. Öll þau já sem voru í rauninni nei sem fundu enga leið út.


Svo má kannski spyrja sig hvort ein rödd í kórnum skipti máli? Ég ætla ekkert að fjölyrða um það. Svarið er já. Hver rödd í kórnum skiptir máli og fyrir okkur sem einstaklinga er sennilega fátt eins dýrmætt og að hafa frelsi til að tjá okkur. Hvað með rasshausana? kann einhver að spyrja. Já hvað með þá? Og hvað með rasshausahugmyndir um hin og þessi málefni sem öll okkar hafa einhverntíman haft? Ég segi oft að ég beri enga virðingu fyrir skoðunum sem slíkum, og það er satt, skoðanir eru eins og beinamjölsfýlan í Bolungarvík forðum daga, getur lyktað illilega, en fer yfir eins hratt eða hægt og aðstæður leyfa. Að þessu sögðu vil ég árétta að ég ber takmarkalausa virðingu fyrir rétti okkar allra til að mynda okkur skoðanir og tjá þær. Ég vil líka að við séum tilbúin til að gangast við því sem okkur finnst og svo leyfa því að breytast þegar tími þess sannleika er liðinn. Við erum ekki gerð úr steini, hugmyndafræði lífs okkar hefur ekki verið sorfin í steinplötur eins og boðorðin. Við lifum á tímum þar sem allt er á stöðugri hreyfingu. Jörðin. Tíminn. Tíðarandinn. Við. Mörkin sem áður voru skýrari í eðli sínu hafa verið afmáð og í vestræna heiminum er pólarísering búið spil. Allt er fljótandi á sama tíma og mörkin skýrast. Er þetta ekki magnað? Það er kannski ekkert skrítið að okkur vefjist stundum tunga um tönn, sérstaklega þegar við áttum okkur á að sannleikur okkar er ekki sá hinn sami og hann var í gær, eða að heimurinn sé ekki sá sami í dag og í gær.



Að eiga rödd getur virkað eitthvað svo léttvægt og það er líka næstum orðið að klisju, en sannleikurinn er samt sá að ef við tjáum ekki hver við erum þá visnum við. Verandi frá æsku talsvert meðvirk, þá tjái ég sannarlega ekki alltaf sannleika minn. Þar kemur tvennt til. Annarsvegar það að þora ekki að tjá mig því í innri heimsmyndinni er fylgni milli þess og slæmra afleiðinga, eða góðra og stundum get ég hvorugt höndlað. Hinsvegar er það að ég veit hreinlega ekki hvað mér finnst, mér finnst eitt þegar einhver segir það og þegar einhver kemur með mótsvar þá finnst mér það líka. Ég er hætt að gera kröfu til mín að vera alltaf með fastmótaðar skoðanir á hverju sem er og sáldra yfir mig umburðarlyndi ef ég man eftir því. En, ef eitthvað truflar samvisku mína eða djúpstæð gildi reyni ég hvað ég get að gefa því rödd, því ef ég þegi verður það að grjóti í maganum á mér og samstuði í hausnum á mér.



Það er margsögð saga að þegar litið er á stærri mynd lífshlaups hverrar manneskju, þá sér hún meira eftir því sem hún gerði ekki, heldur en því sem hún gerði. Þess vegna er að tjá hver maður er með orðum og verkum mikilvægt. Ég veit allavega að sem kona sem komin er á miðjan aldur að þetta á við um mig. Jafnvel þó sumt af því sem ég hef sagt eða gert valdi mér enn hrolli, þá tek ég ofan fyrir þeirri sem hélt á hugrekkiskyndlinum og lét vaða.


Tjáðu rödd þína, hvort sem það er með orðum eða öðrum leiðum. Megir þú eiga orðin þín á meðan þau eru sönn og tjá ný þegar svo ber undir. Megir þú tjá þig hvort sem röddin sé væskilsleg og mjóróma eða hávær og hryssingsleg. Megir þú eiga öll blæbrigðin þar á milli líka. Megir þú eiga og heiðra Nei-ið þitt og já-ið þitt líka. Megir þú segja hátt og skýrt: Nei mig langar ekki í þetta eða Já ég vil þetta endilega! Þegar þú tjáir þig hispurslaust leysir þú sjálfa/n þig úr álögum. Megir þú líka þegar þess þarf lána þeim rödd sem ekki eiga hana. Megum við átta okkur á í tíma þegar Sigrúnirnar og Herðirnir standa ein í vindinum. Auðvitað getum við ekki tekið alla slagina, og þegar við höfum ekki náð að segja upphátt að við viljum ekki mjólk út í kaffið þá er upphafspunktur okkar sennilega á öðrum stað en að vera fílefldur málsvari mannréttinda. En þegar við getum og tíminn er réttur, þá getum við líka ljáð öðrum röddina okkar. Þeir eru svo margir hornsteinarnir í samfélögum mannanna sem eru raunverulega reistir úr orðum.


Magnað verkfæri. Töfrar dagsins. Röddin. Megir þú tjá þína.

42 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page