Þegar þetta er ritað rýni ég glyrnunum á skjáinn því blessuð nóvembersólin lárétt í eðli sínu skín geislum sínum inn um gluggann hjá mér. Það er eins og hún sé rosa mikið að reyna. Ekki hástemmda yfirlýsingin sem virðist ekkert hafa fyrir því að brenna upp heilu sólarhringana í júní, heldur eins og deyjandi dýr (að mönnum meðöldum) sem krefst þess af þér að þú lítir þau í augun eitt síðasta sinn áður en yfir lýkur. Horfðu á mig. Ég dey. Horfðu á mig! Það er ekki langt að bíða þar til sólin deyr okkur hér á Ísafirði. Sekkur ofaní fjöllin og snýr ekki aftur fyrr en undir lok janúar. Far vel mín kæra. Ég fylgi þér í dauðann og ég fylgi þér í upprisu þinni. Hring eftir hring eftir hring. Ef X lofar.
Ef X lofar. Ég notast við X þar sem þessi hluti dæmisins er óþekktur. Ég vildi óska að ég gæti full trúnaðartrausts ritað: ef guð lofar. Ég bara nýt ekki þess láns að eiga trú. Ekki akkúrat núna í það minnsta. Er ég að segja að það skipti mig ekki máli. Nei. Það skiptir mig gríðarlegu máli. Ég hef bæði lifað í þeirri heimsmynd að lífið sé meira en það sem skynfærin og vísindin bjóða okkur upp á, s.s. í trú og ég hef lifað án hennar og ég verð að viðurkenna að líf mitt einhverskonar guð var mun þægilegra á margan hátt, ásamt því sem það var innihaldsríkara.
Ég ætla að segja ykkur sögu. Þegar ég var lítil voru alltaf einhverjir að deyja í kringum okkur. Ömmur mínar, afi, náið skyldfólk og fjölskylduvinir. Á fáum árum hrundi fólk í kringum okkur niður eins og flugur. Það hafði mikil áhrif á litlu barnssálina. Ekki bara að sjá á eftir þessu fólki inn í eilífð sem ég hafði engan skilning á, heldur líka sjá mömmu, sem var fasta landið í tilveru minni, vera bugaða af sorg og síðan upplifa sorg sem ég hafði engar forsendur til að skilja hvernig ég ætti að meðhöndla. Það litla sem pabbi gaf uppi um trú sína benti allt til þess að hann væri trúlaus, en mamma á hinn bóginn átti trú. Hún var svona klassískur trúblendingur, þar sem hún viðaði að sér úr ýmsum áttum því sem henni fannst ríma við heimsmynd sína og smíðaði úr því eigið trúarkerfi. Þar var guð, þar var líf eftir dauðann, þar voru sálir og þar voru líka álfar, að ógleymdum draugum og vættum af ýmsum gerðum. Ekkert gerðist afþvíbara og allt hafði dýpri merkingu en þá sem birtist á yfirborðinu. Í sorginni sagði hún mér sögur af fyrirboðum, draumum og því sem hún hafði frétt úr handanheimum í gegnum fólk sem var tengt þangað. Sögurnar róuðu sorgina.
Einn góðan veðurdag, þegar ég var sennilega 9 ára rakst ég á konu sem sagði mér að það væri ekkert líf eftir dauðann. Ég veit nú ekki alveg hvernig það atvikaðist, en hún sagði mér að það væri ekkert líf eftir dauðann og þegar við dæjum, þá væri þetta búið og við fyndum ekki neitt. Ég fékk áfall og allar götur síðan hef ég getað fundið hvernig það er að finna ekki neitt. Það er verri tilfinning en að fæða barn. Hún er ekki bara innhverf og bundin sálarlífinu, heldur fylgir þessari tilfinningu líkamlegur sársauki. Ég get blessunarlega ekki kallað hana fram alveg hvar og hvenær sem er, heldur kemur hún þegar aðstæður bjóða upp á og hellist yfir mig eins og kaldur foss. Rífur úr mér hjartað eitt augnablik, svo ég missi andann.
Ég var óhuggandi við þessar upplýsingar. Þetta var það hryllilegasta sem ég hafði heyrt og ég vildi alls ekki deyja og varð í einni hendingu skítlogandihrædd við það. Dauðinn sem hafði verið settur upp sem einskonar ævintýri af mömmu var orðinn að martröð. Upphófst langt skeið huggunar af hálfu mömmu sem reyndi hvað hún gat að sefa litla hrædda hjartað. Til að gera langa sögu stutta þá tókst það og ég tók trú mína á ný.
Þó ég hefði sennilega ekki á nokkrum tímapunkti skilgreint sjálfa mig sem trúaða einkenndu samt talsverð andlegheit líf mitt. Þegar að pabbi dó þegar ég var 14 ára varð heimilið okkar aftur miðstöð drauga, dularfullra skilaboða og kærleiksvætta – lífs og liðnum. Þegar þarna var komið sögu var ég þó æ minna á heimilinu og tók mestmegnis við keflinu sem stjórnandi eigin lífs. Eins og allir bændasynir sagnaheimsins fór ég af heimilinu með eitthvað veganesti mér til handa. Það sem kom mér að bestum notum var eiginleikinn að sjá ríkulegan tilgang með hverju sem á gekk. Tilgangurinn var tengdur inn á einhverskonar andlegt trúarkerfi þar sem ég hélt áfram sálarvexti, þó sentímetrarnir á hæðarveginn væru búnir að fullkomna verk sitt. Ég var líka tilbúin að lesa aðrar merkingu út úr því sem ég sá og heyrði heldur en það sem blasti beint við. Þegar ég lít til baka finnst mér þetta allt saman svo skemmtilegt. Töfrandi.
Svo þegar mamma dó þá missti ég trúna. Ekki í einni andrá. Heldur svona smátt og smátt. Mamma var eins og fýsibelgur sem hélt trúnni á lífi í brjósti mér. Þegar hennar naut ekki við lengur slokknaði eldurinn og svo kulnaði smám saman í glæðunum.
Hvernig tengist þetta töfrunum og er þetta ekki full deprímerandi fyrir blogg sem er með það yfirlýsta markmið að þefa uppi daglega töfra? Ég skal segja ykkur það. Töfrar dagsins eru að reyna. Þrátt fyrir að hafa misst trúna og tapað heimsmynd minni – þá hef ég aldrei hætt að reyna. Stundum er það allt sem við eigum í viðfangefnum okkar. Við höldum áfram að reyna að koma þeim heim og saman. Góð kona sagði eitt sitt við mig: Það er ekkert til sem heitir að reyna Anna Sigga. Annað hvort ertu að gera eða gera ekki. Það er eflaust satt og þegar ég er að reyna, þá er ég að gera með þeim veika mætti sem ég á til í það og það skiptið. Megi ég aldrei gefast upp þannig að ég hætti að reyna. Megi ég vera eins og sólin í upphafi pistilsins, alltaf að reyna og stundum að skína án fyrirhafnar.
P.s. Það er til eitthvað sem heitir flókin andleg sorg og kemur hún oft í kjölfar dauðsfalls ástvina sem á stað stað með skjótum eða ofbeldisfullum dauðdaga. Í flókinni andlegri sorg þarf fólk ekki einvörðungu að glíma við sorgina og missinn heldur einnig að reyna að byggja upp heimsmynd sína að nýju. Þetta vissi ég ekki fyrr en í fyrravetur er ég var að skrifa BA-ritgerðina mína. Fyrir mig var mikil huggun að finna þetta og því vildi ég deila því með ykkur ef þið eða einhverjir í kringum ykkur hafa glímt við slíkt.
P.p.s. Það er hægt að gerast áskrifandi að blogginu með því að smella á subscribe hnappinn hér neðst á síðunni.
Comments