Alltof seint sest ég niður í dag til að skrifa. Það er af sem áður var er ég var hin fullkomna B-týpa, gat vakað frameftir öllu með endalausa orku til framkvæmda. Núna vil ég helst ekki eiga nein verk sem bíða mín að kvöldi dags og reyni iðulega að láta það vera svo. Auðvitað er alltaf barnastússið, en það getur bara verið notalegt. Núna er ég með mestu orkuna fyrri partinn og ég sé að langbesta starfsorkan mín virðist vera frá svona átta á morgnanna til tvö á daginn eða svo. Þá er ég langmest vakandi og skilvirkust. Ég var algjör A-týpa sem barn, alltaf vöknuð fyrir allar aldir sem svo snarbreyttist á unglingsárunum. Ef ég sef til 10 núna þá er það svakalegt útsofelsi og ef ég sef lengur en það er ég ómöguleg allan daginn að drepast úr svefnþynnku með tilheyrandi hausverk. Já krakkar mínir, ég er víst dottin í miðaldra.
Ég er búin að vera grasekkja undanfarið þar sem Úlfur skellti sér um síðustu helgi á Skagann að græja baðherbergi með Sissó. Þetta hefur nú gengið alveg ágætlega, en ég sakna hans. Það munar alveg um einn fullorðinn inn á heimilinu. Áðan ætlaði ég aldeilis að slá tvær flugur í einu höggi og láta Fróða lesa á meðan ég þrifi gluggana í borðstofunni, því nú vil ég fara að koma upp jólaljósunum. Ég hljóp um húsið í leit að gluggasköfunni sem var uppi síðan ég þreif gluggana þar á dögunum. Síðan gufaði hún upp! Ég var búin að spreyja gluggann í drasl og hljóp í örvæntingu minni sirka sautján ferðir um húsið upp og niður og út um allt. Ég reyndi að framkalla myndina í huganum af því þegar ég lagði hana frá mér. Allt kom fyrir ekki. Ég var alveg farin að láta vel valin orð falla út í alheiminn. Fróði var viss um að Blíða hefði örugglega tekið hana, en mér fannst það ósennilegt. Ég fann hana á endanum undir eldhúsborði, hvernig í ósköpunum sem hún komst nú þangað! Þannig að ég þreif einn glugga. Hinir bíða bara betri tíma. Kannski að álfarnir séu í jólahreingerningu.
Ég sit núna í makindum og hlusta á nýjustu Nick Cave plötuna Ghosteen. Það er undurfalleg plata. Hann var einmitt að tala um hana í blogginu sínu í gær. Hún rennur milli skinns og hörunds akkúrat eins annað sem hræðir mann og huggar á sama tíma gerir. Hún er svo ljúf og sorgleg í senn, með djúpum og sterkum textasmíðum eins og Cave er von og vísa. Hér er allt pönk og rokk víðsfjarri og fegurðin með undiröldu sársaukans allsráðandi. Ég held í alvörunni að Nick Cave sé fyrirmunað að vera ekki töff. Jafnvel þó hann sendi út í albúmið plötu sem lítur út eins og My little pony fyrir fullorðna - eða eins ótöff og blíður heimur þar sem allt sem gott, hlýtt, töfrandi og fallegt þrífst. Hvað er það sem gerir hann svona eilíflega töff? Heilindi hans. Að þróast og vera samkvæmur þeirri mynd sem hann á af sjálfum sér á hverjum tíma, ekki við. Ég er mikill aðdáandi og mér finnst bloggið hans það fallegasta sem finnst á internetinu, bloggið heitir The red hand files og þar svarar hann spurningum og bréfum aðdáenda (eða kannski eru ekkert allir sem senda inn bréf aðdáendur, en mér finnst það þó líklegra). Það er mikla visku þar að finna. Ég hef hreinlega grátið yfir því stundum og það hefur spilað á alla fínustu strengi hjartans.
Ég hef farið á tvenna tónleika með honum. Aðra fór ég á hér í Hörpu í haust, þar sem hann notaði sama form og í blogginu, að svara spurningum sem lagðar voru fyrir hann. Sumar spurningarnar voru alveg æðisleg meðvirkniæfing á meðan Mercy Seat og Leonard Cohen lagið Avalanche í röð – hvílík sæla. Ég dýrkaði og dáði Cohen (og geri enn þó hann sé ekki lengur á meðal vor), en útgáfa Cave af þessu lagi tekur verulega fram orginalnum. Síðan fórum við nokkrir vinir hér á Ísafirði saman til Glasgow fyrir þremur árum þar sem við sáum Nick Cave and the Bad Seeds í stórri hljómleikahöll. Það var svo svakalegt að ég er enn að jafna mig. Ég hef alveg farið á þó nokkra tónleika á lífsleiðinni, meira að segja séð Cohen og Bowie, en þetta var bara allt annað. Þetta var af skala sem mælist held ég ekki í jarðneskum gæðum. Ég get svo guðsvarið fyrir það að þetta var meira andleg upplifun frekar en annað. Ég hef aldrei séð annan eins listamann á sviði. Það var eins og hann væri þarna persónulega fyrir hverja og eina einustu manneskju í salnum – og þær voru 12.000.
Ég get orðið alveg sjúk í svona stjörnur og verið svo full aðdáunar að mér finnst það sjálfri vandræðalegt, sérstaklega í ljósi þess að gera mér fyllilega grein fyrir að um manneskjur er að ræða. En, ég ætla bara að leyfa mér þetta. Leyfa mér að heillast og leyfa mér að njóta þeirrar listsköpunar sem ég hrífst svo af og finnast manneskjan á bak við sköpunina líka spennandi.
Ég læt einn texta af Ghosteen fylgja, en hann heitir Fireflies og er í raun fluttur sem ljóð með undirspili á plötunni:
Jesus lying in his mother's arms
Is a photon released from a dying star
We move through the forest at night
The sky is full of momentary light
And everything we need is just too far
We are photons released from a dying star
We are fireflies a child has trapped in a jar
And everything is distant as the stars
I am here and you are where you are
We have lived a long time here in the forest
We lie beneath the heaps of leaves
We are partial to this partial light
We cannot sleep and fear our dreams
There is no order here, nothing can be planned
We are fireflies trapped in a little boy's hand
And everything is distant as the stars
And I am here and you are where you are
And we lie among our atoms and I speak to you of things
And hope sometimes that maybe you will understand
There is no order here and there is no middle ground
Nothing can be predicted and nothing can be planned
A star is just a memory of a star
We are fireflies pulsing dimly in the dark
We are here and you are where you are
We are here and you are where you are
Töfrar dagsins er Nick Cave. Töfrar dagsins er listsköpun fólks sem snertir í okkur hjartað. Töfrar dagsins er hrifnæmi okkar, að við leyfum okkar að hrífast og dást.
Comments