top of page
Search
Writer's pictureAnnska Ólafsdóttir

Englarnir sem vaka yfir okkur

Það er ekki alveg hlaupið að blogginu í svipinn. Ylfingarnir tveir ólmast í stofunni og ég reyni að tjónka við þeim og skrifa í leiðinni. Sjáum hvernig það gengur. Það er líka alveg að koma að háttatíma, svo það er betra að hafa hraðar hendur. Fróði hefur líka ekki símann til að sósa sig í, þar sem hann tapaði símanum í dag eftir að hafa verið gripinn glóðvolgur við að lauma honum inn í herbergi eftir að hann átti að vera farinn að sofa í gær. Hann er búinn að reyna ýmsar leiðir til að ná honum til baka í dag, en á sama tíma beygir hann sig undir örlögin sem móðir hans skapar. Ég sé að honum vex ásmegin í allra handa samningatækni. Ég var til dæmist tekin til þriðju gráðu yfirheyrslu í gær eftir að hafa dregið hann nauðbeygðan með mér í leikhús, sem honum fannst auðvitað ömurlegt. Ég reyndi að svara yfirheyrslunum með rökum eins og samfélagslegri ábyrgð okkar þegar fólkið okkar hér á svæðinu væri búið að leggja á sig erfiðið sem þarf til að skapa leiksýningu og að ég reyndi að nýta öll tækifæri sem gæfust til að eiga gæðastundir með sonum mínum og hvað væri betra til þess fallið en fara og njóta menningar saman. Allt kom fyrir ekki. Þarna hafði ég haft tvær klukkustundir af lífi hans sem kæmu ekki aftur. Ég hefði svo sem mátt segja mér þetta fyrirfram. Flestar þær leikhúsupplifanir sem ég hef boðið Fróða að njóta á lífsleiðinni hafa ekki fallið í kramið hjá honum. Þá hlýt ég að spyrja mig hvenær ég gefst upp á að draga hann með mér, svarið er – Aldrei. Ég gefst ekki upp á að reyna að finna hluti sem við getum notið í sameiningu. Ég mun þó hugsa mig tvisvar um áður en ég býð honum í leikhús næst, en við munum prófa okkur áfram í menningunni...og hver veit...kannski íþróttunum líka.


Stundum getur verið svo drullu leiðinlegt að vera foreldri. Það getur reynt á allar hliðar mínar að takast á við erfiða daga í því hlutverki, en ég ætla samt aldrei að hætta að leggja mig fram um að verða betri mamma. Ég hef áður komið inn á það hérna að ég veit vel af hreinræktaðri mennsku minni á því sviði, en ég ætla alltaf að geta horft beint í augun á börnunum mínum og sagt að ég hafi reynt mitt besta. Hafandi átt foreldra sem voru breyski með meiru, þá getur líka verið viss huggun fólgin í því og nánast líkn að trúa að þau hafi gert sitt besta. Stundum gera foreldrar bara alls ekki vel og stundum hreinlega nær geta þeirra ekki lengra. Blessað fólkið.



Ég fékk yndislegt símtal áðan. Hann Bubbi frændi minn hringdi. Ég veit ekki hvort þið vitið hver Bubbi frændi er, en hann er móðurbróðir minn. Bubbi hefur undanfarin ár verið hreinlega ofvirkur (í besta skilningi þess orðs). Hann hefur gengið og synt og hann hefur varla sést öðruvísi hér á Ísafirði en eins og neon gul elding sem skýst út um allt á hjólfáknum sínum. Hann er búinn að kenna nýjum skipstjóraefnum á svæðinu listina að stýra skipum í fræðslumiðstöðinni, menntaskólanum og grunnskólanum, ásamt því að sigla með ferðamenn fyrir Amazing Westfjords. Það hefur verið hrein unun að fylgjast með Bubba á þessari undraverðu vegferð á fullorðinsaldri, en hann varð 74 ára í haust. Síðan hefur Bubbi líka alltaf verið svo skemmtilegur. Hann er einstaklega hlýr maður, auðmjúkur og sagnameistari mikill. Það er alltaf gaman þar sem Bubbi er. Til að auka enn fremur á mannkosti hans býr hann að mikilli lífsreynslu, margri hverri erfiðri, svo það hefur líka verið svo auðvelt að ræða við hann sársaukann sem þrífst undir sólinni. Það er oft betra að ræða við þá sem þekkja til um hluti eins og missi. Ekki að fólk sem ekki hefur upplifað missi geti ekki sett sig í spor annarra og sýnt djúpa hluttekningu, en það eru einhver bönd sem tengja okkur sem hann hefur höggvið harkalega í. Svo voru auðvitað mamma og Bubbi svo miklir vinir, auk þess að vera systkini, svo það hefur oft verið gott að tala um mömmu við Bubba.


Í sumar skömmu áður en við héldum til Ítalíu hafði ég samband við Bubba í einhverju bríaríi og spurði hann hvort hann vildi ekki skella sér með okkur út. Það væri nóg pláss í villunni sem við vorum búin að leigja og yrði rosa gaman að hafa hann með. Bubbi þakkaði boðið og sagði að hann hafi verið búinn að gera ráðstafanir þar sem hann og fjölskyldan ætluðu í minningagöngu um Begga son hans. Það náði ekki lengra í það skiptið, en vel þess virði að reyna. Blessunarlega eftir á að hyggja, því þegar við vorum úti á Ítalíu fengum við þær leiðu fréttir að Bubbi hefði fengið blóðtappa í höfuð og hefði lamast á vinstri hlið. Elsku hjartans Bubbi, duglegi, sterki og heilsuhrausti, var kominn inn á spítala og mátti búa sig undir óheyrilega vinnu við að byggja sig upp að nýju.



Eins og Bubba er lagið hefur hann ekki slakað á við að koma sér aftur á fæturna. Það hefur mikið unnist, en enn er talsvert í land. Dætur hans hafa barist eins og ljón fyrir því að hann fái viðeigandi meðferð og komist þangað sem best fer um hann eins og staðan er. En því miður verð ég að segja fyrir hönd þessa duglega frænda míns, hefur ekki tekist að fá pláss fyrir hann á Grensás, þar sem hann fengi auðvitað bestu endurhæfingu sem maður í hans stöðu gæti fengið. Ég ætla að leyfa mér að trúa því áfram að hann komist þangað inn einn góðan veðurdag.


Jæja nema hvað. Það sem kannski hefur leikið Bubba einna verst er svokallað gaumstol og hefur það til að mynda áhrif á færni hans til að sjá og skynja það sem honum á vinstri hönd, þá veldur það skertri sjálfbjargar- og hreyfigetu. Það var til dæmis talsvert erfitt fyrir Bubba, sem alltaf hefur verið frekar duglegur í símanum, að átta sig hreinlega á hvernig slík tæki virkuðu. Hann er búinn að vera að byggja upp þá færni að nýju og er þetta í annað skiptið sem hann hringir í mig. Ég get sagt ykkur að hjartað í mér hefur tekið kipp við að sjá nafn Bubba birtast á skjánum. Yndislegt alveg hreint.


Bubbi gleymir ekki sínum og hann vakir enn yfir velferð minni og ættingja sinna. Ástæðan fyrir símtalinu áðan var að hann vildi vita hvort ég ætlaði ekki örugglega að taka þátt í rannsókn á arfgengri heilablæðingu sem fyrirfinnst í ættinni okkar. Hversu fallegt er það að vita að blessaður móðurbróðir minn hringi í mig af Sjúkrahúsinu á Akranesi til að passa upp á mig...og til að passa upp á að ég myndi passa upp á hina sem ekki vita af þessu.


Töfrar dagsins eru englarnir sem vaka yfir okkur, hvort sem þeir eru þessa heims eða annars <3


Bubbi og Lilló móðursystkini mín eru algjörar dásemdir!

61 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page