top of page
Search
Writer's pictureAnnska Ólafsdóttir

Hið fallvalta og magnaða minni

Það er misjafn hvað kveikir áhugabálið innra með okkur. Sumt getur kveikt í okkur hvar og hvenær sem er, en annað hraðfrystir í okkur vitundina eins og nýjasta frystigræjan frá 3X frystir þorskhnakka á örskotsstundu. Sumt vekur áhuga á sunnudegi, en engan á mánudegi. Sumt vekur áhuga strax en við skoðun tekur að dofna yfir honum, á meðan að annað gæti virkað óspennandi, en þegar farið er að skoða það betur getur það verið afar gefandi og allrar athygli vert.


Ég er að tala um þetta vegna þess að ég er að fara í Sköpunarklúbb í kvöld (merkilegt hvað ég Freudískt slæ iðulega inn Sköðunarklúbb!) Þemað að þessu sinni er minni. Minni er vítt hugtak og það er hægt að nálgast sköpunarverkin (sköðunarverkin....aftur....dísess) frá ýmsum hliðum. Ég get fjallað um hið klassíska líffræðilega minni okkar, sem er samkvæmt Wikipediu hæfileikinn til að móttaka eða afla, varðveita og endurheimta upplýsingar. Ég gæti fært minni einhvers, sbr. Minni kvenna, minni sjómanna o.s.frv., ég gæti líka slegið þessu upp í að gera eitthvað um það að vera orðin minni en Fróði Örn. Það sem blasti samt beint við sögukvendinu, fortíðardýrkandanum og manntilvistaráhugamanneskjunni mér var að fjalla um minningar. Ég ákvað samt strax að slá þann valkost út af borðinu því hann væri einfaldlega of augljóst val af minni hálfu og maður þarf jú reglulega að gera eitthvað annað en það sem liggur við beinustu leið. Ekki verða klisja kona! Jæja nema hvað að mér fannst líka spennandi að fjalla um hið beinharða minni (þarna var ég búin að skrifa breinharða – halló aftur Freud!) Ég hélt að þetta væri eitthvað sem mér fyndist áhugavert. Ég var búin að finna til myndir frá Úlfi af fjörunni í Aðalvík sem mér finnst ótrúlega fallegt vitni um hvernig sandurinn man vatnið og hversu ólíkt það minni getur verið. Síðan var ætlun mín að skrifa ljóð/texta um tengslin við virkni minnisins. Það hef ég hinsvegar ekki getað klárað. Ég er aftur og aftur í dag búin að setjast við tölvuna. Búin að afla mér einhverra heimilda. Búin að setja upp myndirnar, en svo gerist bara ekki neitt spennandi.


Svona man sandurinn vatnið

Ég skil hreinlega ekki áhugaleysi sjálfrar mín. Sérstaklega þegar færa má viss rök fyrir því að sé manneskja sneidd öllu minni, sé hún í raun meðvitundarlaus. Síðan eru þarna líka gersemar eins og að skemmd í möndlungi valdi óttaleysi! Minnið getur verið ótrúlega magnað fyrirbæri og flestir þekkja líka óþægindin sem það veldur þegar það svíkur. Minnið er þannig úr garði gert að séu manneskjur undir miklu álagi, t.d. í streituástandi vegna lífsstíls (eða lífsins yfirleitt) eða í áfallastreitu, þá virkar það ekki sem skildi. Ég hef lent í því oftar en ég man – svona raunverulega – að geta ekki munað hitt eða þetta og sumt af því hefur verið pínlegt. Eins og gott grín um minnið man ég auðvitað ekki eftir neinni sögu í svipinn, en ég man eina um mömmu. Þegar pabbi lá fyrir dauðanum á Landsspítalanum var álagið á fjölskylduna gríðarlegt og þó allir hafi verið að ganga í gegnum erfiða og raunarlega tíma, þá mæddi ekki á neinum eins og mömmu. Hún var sú sem þurfti að halda öllu gangandi, þrátt fyrir að eiga eiginmanninn á banabeðinu. Nema eitt sinn hittir hún á ganginum mann úr Ólafsvík sem var að ræða við hana hversu hræðilegt þetta væri og pabbi væri auðvitað allt of ungur til að kveðja við. Hann spyr svo: Hvað er hann Óli aftur gamall? Mömmu var gjörsamlega fyrirmunað að rifja upp hversu gamall pabbi væri. Svo hún svarar að það sé alveg stolið úr henni, en það sé lítið mál að finna út úr því, því hann sé 11 árum eldri en hún. Síðan tók við þögn. Og þögnin lengdist. Mamma mundi ekki hvað hún sjálf var gömul. Svona getur minnið látið.


Það er líka þannig að allt sem við gerum í lífinu er bundið minninu. Við lærum athafnir og orð sem gera okkur að manneskjum, ekki bara það, heldur gerir okkur nákvæmlega að þeim manneskjum sem við erum. Hvernig er ekki hægt að vera ofurseld áhuga yfir því undri?


Svona man sandurinn vatnið II

Eins og það að skapa getur verið innilega verðlaunandi, getur það verið þjáningarfullt þegar að sköpunarverkin eins og maður sér þau fyrir sér sem fullmótuð verk láta á sér standa. Þegar þau gerast hreinlega ekki, eða þegar maður þarf að leyfa sér þann munað að hverfa aftur að barnastigi til að skila einhverri útkomu. Við erum nefnilega ekki góð í öllu og við erum sannarlega ekki góð í einhverju í einni svipan. Blessunarlega er ég með plan B og C fyrir Sköpunarklúbbinn og ég læt það ekki hjá líða að hitta sköpunarsysturnar þegar færi gefst. Þar er líka svo fallegt að fá að njóta hinnar hráu listsköpunar. Hlutirnir þurfa ekki að vera fullkomnir til að vera áhugaverðir og algjörlega til þess fallnir að vekja umhugsun og innblástur.


Minnið eru töfrar dagsins. Eins og það getur leitt mig í öngstræti er það líka með það í valdi sínu að hefja sál mína upp til himinsins og lita dagana með öllum litum regnbogans. Það er frábært að vita til þess að ég get og geri allt fyrir tilstilli minnisins. Hvar væri ég tildæmis ef minnið mitt byði ekki upp á þann valkost að labba og hversu frábært er það að minnið gleymir því ekki hvernig það er að dansa. Svo þarf ég að setjast í samningaviðræður við möndlunginn um þetta með óttann.


Svona man sandurinn vatnið III

39 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page