top of page
Search
Writer's pictureAnnska Ólafsdóttir

Leiddu þína litlu hendi...

Hversu dásamlegt væri það að hafa einhvern sér við hlið sem leiddi mann í gegnum sérhvert verkefni lífsins? Ég veit að ég hefði tekist á við margt öðruvísi en ég hef gert ef ég hefði haft einhvern á hliðarlínunni sem hvatti mig eindregið áfram og stundum þegar erfðast var leiddi mig í gegnum verkin skref fyrir skref. Þýðir þetta að ég hafi aldrei átt stuðninginn vísan? Alls ekki, því ég hef haft ótal margar klappstýrur sem hafa viljað mér allt hið besta og jafnvel verið til í að leggja á sig talsverða vinnu svo ég myndi klára. Ég hef hinsvegar alls ekki alltaf geta þegið slíka hjálp. Inn í mér hef ég hvorki haft nægilega fylgni með sjálfri mér eða nóga trú á því sem ég er að gera. Stundum hvort tveggja.


Vitiði...ég ætla bara að leiða hana um lífið þessa

Deginum hef ég varið í að gera umsókn fyrir Uppbyggingarsjóð Vestfjarða. Ég er að sækja um fyrir ritstörf. Uppbyggingarsjóðurinn er að mörgu leyti alveg frábær og hefur veitt mörgum mikilvægum verkefnum brautargengi, sem hafa fyrir vikið auðgað líf okkar sem hér búum. Ef mig misminnir ekki þá hef ég einu sinni sótt um styrk í sjóðinn í þeirri mynd sem hann er núna – og hlotið hann. Það endaði þó þannig að ég skilaði styrknum þar sem ég gat ekki leyst verkefnið með þeim hætti sem ég hafði ætlað mér. Ég fékk líka styrk úr sjóðnum sem fór á undan, menningarráði Vestfjarða og kláraði það verkefni. Uppbyggingarsjóðurinn hefur úr meiri fjármunum að moða en hinn sjóðurinn, en það eru líka fjölbreyttari verkefni en þau sem lúta að menningu sem eru gjaldgeng. Þetta hefur væntanlega bæði kosti og galla. Mig langar aðeins að fjalla um gallana. Nýi sjóðurinn leggur alls ekki eins mikið upp úr því að styðja grasrótarstarf og fyrirrennari hans gerði og því minna um allar litlu þúfurnar sem geta sannarlega valdið þungum hlössum í menningarlegu tilliti. Sjóðurinn t.a.m. hafnar því að styðja við hverskyns útgáfu, sem mér finnst mikill ljóður á honum. Mér finnst eins og sjóðurinn misskilji hlutverk sitt og hvar áhrifa vaxtarsprota hans gætu sannarlega gætt. Útgefið efni, eins og allra handa bækur og tónlist gætu komið með beinharða vestfirska afurð á markaðinn. Það gagnast þeim sem að útgáfunni standa, það gagnast unnendum verkanna og það gagnast ferðaþjónustunni, þar sem með því væru komnir lókal minjagripir til að kippa með sér, annað hvort til eigin nota eða til gjafa eftir að heim er komið. Þetta er svona allir græða dæmi.


Jæja ég á bara eftir að leggja lokahönd á umsóknina áður en ég skila henni inn á morgun. Eins og ég sagði áðan er ég að sækja um fyrir ritstörf og það per sei er nokkuð útópísk hugmynd. Ég er ekki að segja að ég hafi þegar þrykkt árunum í bátinn – tjakknum í andlitið á eigandanum – en ég er ekkert sérstaklega bjartsýn engu að síður. Ég þarf samt að gera þetta. Ég þarf að gera þetta fyrir sjálfa mig. Ég þarf líka að gera þetta til að sjá hvort ritlist sem slík eigi einhvern glugga inn í þennan sjóð. Þegar ég segi að ég sé ekkert sérstaklega bjartsýn vil ég bæta við að ég er ekkert sérstaklega svartsýn heldur.


Stundum finnum við að við eigum það inni hjá okkur að bakka okkur upp. Ég er búin að ganga nógu lengi um með einhverslags rithöfundadrauma í maganum að geta nú sagt við sjálfa mig: Veistu! Ég heyri í þér. Ég heyri það sem þú ert að segja. Það er þetta sem þú vilt gera. Ég skal vera með þér í liði, ég skal tala þínu máli, ég skal taka frá tímann, ég skal gera það sem í mínu valdi stendur til að láta þetta ganga upp. Ég skal gera það sem í mínu valdi stendur til að draumarnir þínir megi rætast. Ég er skylmingarþrællinn þinn, sverðgleypirinn og klappstýran. Ég leiði þig áfram skref fyrir skref. Ef þú dettur þá rétti ég þér höndina. Ef þú vilt hana ekki stend ég þarna samt. Ég stend við hliðina á þér og segi stundarhátt: Áfram elskan! Ég veit þú getur þetta! Síðan dusta ég af mér rykið, sleiki sárin og lít upp til þeirrar mín sem stendur þarna með mér, bara til að athuga hvort hún sé þarna enn. Já hún er þarna. Ég er þarna og ég er ekki á förum neitt. Ekki neitt annað en að ganga skref fyrir skref fyrir skref að markinu þar sem draumarnir búa.



Eitt sem ég tók eftir þegar ég var að gera umsóknina. Ég hef náttúrulega aldrei skrifað heila bók áður og veit því ekki nákvæmlega hvað ég er lengi að því, en ég geri ráð fyrir því að ef ég einbeiti mér að verkinu og helga mig því sem aðal, þá gæti það tekið mig um 6 mánuði. Fjóra mánuði að vinna upp gott magn af hráefnistexta. Tvo mánuði í uppsetningu, klippingu og endurskrif. Ég skoðaði hvað er greitt á mánuði í listamannalaun og hafði það til viðmiðunar. Síðan var ég bara – sjitt! – Ég get aldrei beðið um slíka upphæð. Hvílík og önnur eins heimtufrekja! Þó ég hafi tekið allskonar frekjuköst í gegnum tíðina, þá hef ég strögglað djúpt og innilega með að setja fram kröfur af minni hálfu þegar kemur að peningum. Ég er næstum því fötluð (afsakið orðbragðið, en ég meina þetta) þegar kemur að því að rukka fyrir framlag mitt. Ég meira að segja rukka oft ekki fyrir framlag mitt þó um það hafi verið samið. Þannig að núna er ég að æfa þetta. Æfa að segja við sjálfa mig. Þetta er allt í lagi. Þú ert alveg þess verð að fá greitt fyrir framlag þitt. Ég vil líka bæta því við, svo ég sjálf heyri: Framlag þitt skipti máli. Ef ég hef náð að gera góða samninga fyrir sjálfa mig eða jafnvel rukkað upp í topp fyrir eitthvað sem ég geri þarf ég stundum að taka mig taki að gefa fólki ekki einhverja rættlætingarræðu með því að þurfa að borga mér slíka fjármuni. Þetta er svona eins og ég sé Wayne og Garth í Wayne’s World þegar þeir henda sér á hnén fyrir framan Alice Cooper og segjast ekki verðugir félagsskapsins (we’re not worthy!) Já og ef þið voruð ekki búin að fatta það þá er Alice Cooper peningarnir – nú eða velgengni yfirleitt.



Töfrar dagsins eru fólgnir í því að fylgja sjálfum sér eftir. Fylgja sér eftir, meira að segja þegar líkurnar eru ekkert endilega með manni í liði. Fylgja sér eftir því maður veit að það er þúsund sinnum meira svekkjandi að skilja sjálfa sig eftir eina/n og umkomulausa/n einhversstaðar en labba með sér þann veg sem þarf að fara.

84 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page