Ég hef kenningu um að vindurinn sem hefur geisað utandyra hafi sogið úr mér andríkið. Það getur líka verið að áskoranir í móðurhlutverkinu hafi eitthvað með það að gera að mér líður svolítið eins og þvældri tusku. Ég get allavega sagt ykkur að það er alveg sama hversu gamall maður er – það er alltaf hægt að fá vaxtarverki. Það getur tekið á að vera ekki bara vaninn og það tekur að sjálfsögðu á að taka þá slagi sem maður velur. Að vera mamma snýst að mörgu leiti um að velja hvenær ég stíg inn af fullum þunga og hvenær ég leyfi hlutunum að slæda. Ég og mennskan mín ráðum ekki við að vera ofurmamma. Enda hef ég aldrei lifað í þeirri blekkingu að ég gæti orðið slík.
Ég var 32ja ára þegar Fróði fæddist og ég hafði þar til skömmu áður verið nokkuð viss um að vilja ekki eignast börn. Nema. Ég fór eitthvað að vega og meta kosti þess að eiga barn – og eiga ekki barn og komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi ekki vera án þeirrar reynslu í lífinu. Svo úr varð Fróði. Eitt sinn þegar ég var yngri fór ég til miðils. Ég man enn tvennt sem hann sagði (og ekki meir). Annað var frekar magnað. Á þeim tímapunkti bjó ég í íbúð sem mér leið ekki vel í og hefur mér þó í gegnum tíðina almennt liðið vel í því húsnæði sem ég bý hverju sinni og ekkert haft út í húsakostinn sem slíkan að sakast. Nema í þessari íbúð leið mér illa og tengdi það beint við húsnæðið. Við Úlfur vorum nýlega farin að vera saman og ég sagði gjarnan við hann: Mér finnst eins og ég sé að kafna hérna inni! Þegar ég fór til miðilsins sagði hann að Óli, pabbi minn, væri þarna kominn og hann sagði að mér liði ekki nógu vel þar sem ég byggi – og hafði síðan nákvæmlega eftir þessi orð mín. Þó ég viti ekkert hverju ég trúi núna og trúi í raun litlu, þá verð ég að segja að mér finnst þetta frekar magnað. Nema hann sagði líka að ég væri ekki að hugsa um barneignir en ég myndi eftir nokkur ár eignast barn og bætti við: Og guð hjálpi þér – því það verður alveg sport-útgáfan af sjálfri þér!
Synirnir hafa báðir safnað í lífsreynslusarpinn í dag með orðum sínum og athöfnum og án þess endilega að fara alveg ofan í saumana á því get ég sagt að þeir takast með ólíkum hætti á við sjálfa sig og lífið. Enda tvær ólíkar manneskjur – fyrir utan að vera líka á ólíkum aldri og þroskaskeiði. Og annar með með ADHD og vel mælanlegan mótþróa og blessað barnið á móður sem fattaði of seint fyrir helgina að fjölnota lyfseðillinn væri uppurinn, svo barnið hefur ekki verið á fullum lyfjaskammti sem hefur óneitanlega valdið bæði honum og öllum sem hafa þurft að umgangast hann talsverðum óþægindum. Blessaður karlinn. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt ykkur að svona nokkuð gerðist ekki á okkar bæ....að þessi mamma myndi nú alltaf eftir því að endurnýja lyfseðla, eða hefði lært af biturri reynslu síðast þegar þetta gerðist. En nei.
Talandi um ADHD verð ég að segja ykkur svolítið skondið sem bar við á dögunum. Ég var með eldri soninn í árlegu eftirliti á tannlæknastofunni þegar maður vindur sér upp að mér og segir mér að leiðir okkar hafi legið saman á lífsleiðinni. Það fór allt á milljón í hausnum á mér, en blaðsíðurnar þar voru hálf tómlegar. Hann segir mér svo að hann hafi verið kennarinn minn á tímabili í grunnskóla. Það rifjaðist upp fyrir mér hver hann var með veittri aðstoð og síðan förum við að ræða hvað hafi á daga okkar drifið frá því er við hittumst síðast. Ég sagði honum meðal annars frá því afreki mínu að klára háskólanámið í vor og hann svaraði að það kæmi sér ekkert á óvart því ég hafi alltaf, þegar svo bar undir, verið mjög áhugasamur nemandi. Síðan bætti hann við að þetta hafi nú sennilega ekki verið auðvelt og við vissum bæði nú hvað hefði verið að mér, þó við höfum ekki vitað það þá. Ég hváði við og á örfáum sekúndum komu mér til hugar þau þúsund atriði sem hefðu getað verið að mér, beygluð sem ég var. Í eðlislægu hömluleysi spurði ég hvað hefði verið að mér? Hann svaraði að mér hefði nú ekki verið sjálfrætt vegna ADHD. Búmm! Ég hef oft greint mig með ADHD, þó ég sé alveg hætt að kenna mig við þá skilgreiningu núorðið, en ég verð að viðurkenna að mér þótti vænt um þetta. Mér þótti vænt um að hann hafi séð mig og orðið vitni að ströggli mínu, enn vænna þótti mér um að hann skyldi hafa sagt þetta upphátt. Þegar mömmu og pabba nýtur ekki lengur við þá getur verið snúið að reiða sig á minningar. Eins og ég var að ræða í minnispistlinum í gær, þá getur það verið helst til fallvalt og þar sem mér finnst ég „læknuð“ af ADHD í truflandi magni í dag þýðir það ekki að á öðrum ævistigum hafi það verið mér talsverður fjötur um fót.
Ég byrjaði að skrifa þennan pistil á sama tíma og ég var að elda kvöldmatinn. Ef þið áttuðuð ykkur ekki á því er það ekki góð hugmynd. Framan af gekk það vel og ég kastaði mér á milli potta, panna og tölvu. Á einhverjum tímapunkti var ég komin á mikið flug og heyri einhver skrítin hljóð. Ég leit upp og sá að eldhúsið var óðum að fyllast af reyk og bölvuð viðbrennslufýlan náði vitum mínum (loksins). Ég hentist í að rífa pottinn af hellunni og rífa pottinn í sundur þar sem ég var að gufusjóða (bókstaflega) sætar kartöflur og rófur. Það var svo mikið at á mér að vænn biti af sætri kartöflu þeyttist í gólfið og eina „barnið“ hundurinn sem ekki var brennt eftir daginn náði að grilla á sér ginið þegar hún á núll einni skóflaði henni í sig. 3-0 er staðan á brenndum börnum á þessu heimili þennan vindasama mánudag í nóvember. En nú þegar sólin er sest á raunirnar, veit ég vel að þetta er bara einn af þessum dögum og við þræðum áfram saman kræklótta lífveginn með einstaka brunabletti hér og þar.
Töfrar dagsins eru hverdagslegir mánudagar sem stundum virðast mánudaga yfir sig. Töfrar dagsins eru að halda áfram að takast á við breyskleika sjálfra sín og barna sinna (já við tökumst líka á við þeirra) og töfrar dagsins og trunta er ADHD í allri sinni dýrð og veldi.
P.s. Ég vil benda á að EMDR meðferð gagnaðist mér á undraverðan hátt við að tækla ADHD, sem segir mér að mitt hafi verið byggt að hluta upp af áfallastreitu.
p.p.s Mér þykir ótrúlega vænt um að vita að þið séuð að lesa og bendi á að hægt er að gerast áskrifandi að blogginu hér neðst á síðunni.
Comentarios