Ef mér skjátlast ekki hefur sólin nú lagst í sinn árlega vetrardvala hjá okkur hér á Ísafirði. Hún er þó ekki mjög langt undan og sá okkur bæjarbúum fyrir undurfallegri birtu í blíðviðrinu í dag. Ég mun sakna hennar og er strax farin að hlakka til endurkomunnar. Ég verð þó að segja að með aldrinum kann ég alltaf betur og betur við myrkrið. Það er svo mikil náð í myrkrinu og það í eðli sínu dregur úr kröfunum á okkur mennina. Myrkrið segir sofðu meira, hvíldu þig, safnaðu kröftum, hafðu það huggulegt, kveiktu á kerti, lestu bók, sittu með fólkinu þínu, farðu snemma í bólið, kveiktu jólaljósin, fáðu þér mandarínu, bakaðu smákökur og drekktu heitt kakó. En þar sem það er svo hófstillt í eðli sínu segir það auðvitað ekki þetta allt í einu.
Fyrir flökkurófu er gott að eiga heim. Heim sem segir manni með hefðum sínum hvað er í vændum. Fyrsti í aðdraganda jólanna, eða það fyrsta sem minnir mig á að þau séu á næsta leiti er sá yndislegi viðburður Opin bók, sem haldinn er í menningarmiðstöðinni Edinborg árlega, svo er það kolaportið hjá kvenfélaginu Hvöt í Hnífsdal, svo blót ásatrúarfólks á svæðinu, stelpujólin hjá Mimmo með smurbrauði og jólapakkaleik og tendrun ljósanna á jólatrénu á Silfurtorgi og torgsala Tónlistarskólans. Síðan er allt komið á blússandi jólasiglingu, sem hér er þó yfirleitt ekki í stressham, heldur frekar ljúf. Jólin eru svo fullkomlega staðsett á árinu.
Ég er mikið jólabarn, sem ég fékk í beinan móðurarf. Talandi um móðurarf, þá fór ég í dag á bókasafnið og hlýddi á Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur fjalla um bók sína Jakobínu, þar sem hún fjallar um ævi og störf móður sinnar, rithöfundarins og skáldsins Jakobínu Sigurðardóttur. Ég hef lesið mikið af ljóðunum hennar og en af bókunum hef ég eingöngu lesið Í barndómi, þar sem hún segir frá uppvexti sínum í Hælavík á Hornströndum. Það er alveg ótrúlegt til þess að hugsa hversu óralanga vegu sú veröld sem þar er sagt frá er frá þeirri sem börn alast upp í í dag. Nýja bókin um Jakobínu hefur verið kvöldlestur minn síðustu daga. Mig langaði að fræðast meira um þessa merku konu, sem átti sér þann draum heitastan að verða rithöfundur. Ég tengi auðvitað sterkt við slíka drauma og hugsa hverslags þrekvirki það var fyrir konu á hennar tíma að láta að sér kveða með þeim hætti sem hún gerði.
Hvað bókina varðar þá styðst hún að miklu leyti við hinar ýmsu heimildir, en inn á milli kemur uppbrot á þeim texta, þar sem höfundurinn Sigga Stína á í samtali við móður sína að henni genginni. Ég verð að segja að mér finnst þessir kaflar mjög áhugaverðir. Mér finnst bæði áhugavert að sjá glímuna sem höfundurinn hefur átt í við sjálfa sig og mér finnst mjög skemmtilegt að fá þessa mynd af Jakobínu sem dóttir hennar dregur upp í gegnum samtölin, mér finnst ég fá að kynnast henni betur í gegnum þetta. Þar sem ég nota næstum allt sem spegil á sjálfa mig velti ég því fyrir mér hvernig sú mynd er sem ég dreg upp á móður minni með skrifum mínum og hvað mömmu kynni að finnast um skrifin.
Á svo margan hátt var ég einstaklega heppin með mömmu. Ég átti mömmu sem elskaði mig af öllu hjarta og lét mig vita hversu kær ég var henni. Bara sá partur að hafa verið elskuð af henni og það fyrir það hver ég er í grunninn, er gjöf sem ekki er sjálfgefin. Auðvitað kunni hún betur við sumar hliðar mínar en aðrar eins og gefur að skilja, en mamma var ekkert sérstaklega hrædd við skuggana. Hún gerði sér vel grein fyrir að hver og ein manneskja væri samansett úr samspili ljóss og skugga. Mér finnst verulega sárt til þess að hugsa að mamma fékk ekki svo vel notið ljóssins sem hún sjálf var og dansaði mikið á myrkari hliðum sjálfsins, þar sem þunglyndi, kvíði og alkóhólismi höfðu völdin. Ég myndi gefa mikið fyrir að það hefði ekki þurft að vera þannig, en ég myndi líka gefa mikið fyrir að fá að hafa hana enn hérna hjá okkur. Þannig að mín samtöl við mömmu þurfi ekki að vera eins og í bókinni, uppdiktuð.
Ég vona að mamma hafi gert sér grein fyrir hversu mikils virði hún var okkur barnanna hennar, en stundum efast ég aðeins um það í ljósi þess að hún svipti sig lífi. Þegar einhver er kominn á þann stað að dauðinn sé færasta leiðin út úr aðstæðunum er sennilega ekki sterk sú tilfinning að maður skipti í raun og veru máli. Ég hef í gegnum tíðina, allt frá dauða mömmu ekki dregið yfir þá staðreynd að hún hafi endað líf sitt og að hún hafi verið þjökuð. Mamma var þeirrar kynslóðar sem var að byrja að opna á umræðu um sárin og brestina og ég kýs að trúa því að mamma sé bara alveg sátt við hvernig ég tala um hana að henni genginni. Ég eigna henni ljósið hennar – en tek ekki frá henni skugga hennar.
Ég á því láni að fagna að eiga enn ást mömmu inn í mér, svo berst ég við draugana sem hún arfleiddi mig að með athöfnum sínum og þá ekki síst þeirri síðustu. Þó ég hafi aldrei beinlínis áfellst mömmu fyrir dauðann, þá hefur hann sett mark sitt á líf mitt á margslunginn hátt og það er líka ábyrgð mín gagnvart sjálfri mér að vera heiðarleg með það.
Ég vissi ekkert hvað ég var að fara að skrifa um þegar ég byrjaði og núna langar mig að skrifa þetta allt upp á nýtt og gera bara fallegt mömmublogg. En tíminn er ekki með mér í liði og Töfradagbókin hefur verið frábær æfing í því að vaða svolítið á súðum og láta það svo gossa á alnetið. Þetta er frábær leið til þess að taka sjálfa sig ekkert of hátíðlega. Það er líka gott að vita að sannleikur minn er eitthvað sem er á sífelldri hreyfingu eins og jörðin og lífið. Það sem er ofan á í dag kann að verða undir á morgun.
Töfrar dagsins eru mömmusamtöl. Hvar sem mömmurnar kunna að vera og hvort sem þær eru í raun og sann þátttakendur í samtölunum. Hvernig sem það er – þá er ekkert okkar móðurlaust og við eigum öll mömmu inn í okkur!
Comments