top of page
Search
Writer's pictureAnnska Ólafsdóttir

Sómakenndin og siðferðið í langtíburtistan

Hvernig er annað hægt í dag en vera fremur illt í sínu íslenska skinni? Uppljóstranir Kveiks, Stundarinnar og Wikileaks um framferði Samherjabáknsins í Namibíu eru þess eðlis að fá alla sem hafa snefil af sómakennd og siðferðisvitund til að fá óbragð í munninn. Málið var til umræðu við kvöldverðarborðið í gær, áður en Kveikur fór í loftið og ég hafði engan áhuga á því að horfa, þar sem ég hef ekki haft nokkra trú á siðferðisþreki og manngæsku Þorsteins Más Baldvinssonar. Kannski finnst einhverjum ósanngjarnt að beina vantrausti mínu og reiði svona að einum manni, þar sem Samherji er nú með stærri fyrirtækjum landsins, en ég vísa í hið forkveðna að eftir höfðinu dansi limirnir. Það þarf líka að taka inn í reikninginn að ég bý á Ísafirði og hér hefur ekki gleymst hvernig farið var með fólk og fjármuni þegar Guggan sigldi út fjörðinn eitt síðasta sinn. Guggan var nefnilega ekki áfram gul, þrátt fyrir hátíðlegt loforð Þorsteins Más um annað. Það fór samt svo að ég horfði á þáttinn. Ég get ekki sagt að það sem fyrir augu bar hafi komið mér á óvart, það gerði það ekki á nokkurn hátt.




Hvað er mér svo efst í huga í þessu ölduróti þjóðarinnar? Fyrir það fyrsta þá vil ég segja: Við erum ekki öll Samherji og fólk innan þess fyrirtækis er það ekki heldur. Ég vil segja að ég tek ofan fyrir Jóhannesi Stefánssyni, það þarf bæði sterk bein og mikla auðmýkt til að stíga svona fram. Ég trúi á iðrun og endurbót. Já hann tók þátt í þessu – þangað til hann gat ekki meir. Hvernig ætti svo sem manneskja með hjarta sem slær að geta tekið þátt í svona til lengdar? Horfandi á svikin holdgerast í afkomuströggli og aðbúnaði fátækrar þjóðar. Þjóð sem á auðlind sem gæti breytt ýmsu, væri haldið á spöðunum með sanngjörnum hætti. Mér finnst aðdáunarvert að Jóhannes hafi komið fram undir nafni og sagt frá svo allir heyrðu. Það var sjálfur Jesús sem sagði: Sannleikurinn mun gera yður frjálsa og Jóhannes ætti að geta frelsað samviskuna með því að hafa ljáð réttlætinu rödd sína. Þó málið muni án vafa draga dilk á eftir sér fyrir hann persónulega. Annað sem er mér hugleikið. Þetta mál hefði aldrei geta verið krufið með þeim hætti sem það var gert ef ekki væri fyrir Wikileaks. Það setur að mér hroll að vita hvernig komið er fyrir Julian Assange, stofnanda fyrirtækisins og brautryðjanda á sviði gagnauppljóstrana. Ég fæ alveg fyrir hjartað þegar ég sé hann. Ætlum við að horfa á hann deyja fyrir opnum tjöldum. Ég veit alveg að málið hans er flókið og hann flókinn persónuleiki, en er mál hans í alvörunni ekki eitthvað sem þarf að berjast fyrir?


Ég verð að segja að mér finnst ekkert hræðilegast hvernig við sem þjóð eða Samherji fer út úr þessu rugli, þó þetta skaði ímynd beggja. Mér finnst hræðilegast hvernig hefur verið farið með Namibíumenn. Við ættum að vera nógu andskoti þróuð þjóð til að gera skýlausa kröfu um að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins ástundi heiðarlega og sanngjarna viðskiptahætti. Sérstaklega þegar farið er í viðskipti á viðkvæmum svæðum, eins og Namibíu, sem var skilgreind sem þróunarríki þar til 1990 (ef mér misminnir ekki). Þegar fólk hefur varla kynnst öðru en níðst sé á því kynslóð eftir kynslóð, þá er engin leið fyrir það að stíga með fullþroskaða viðskiptahætti fram á sjónarsviðið. Svo þrátt fyrir spillinguna sem þrífst í namibískum stjórnmálum þá get ég samt frekar skilið að það sé að eiga sér stað þar, þó ég styðji hana að sjálfssögðu ekki.


Það sem Þorsteinn Már gerir, og það greinilega ítrekað, er að níðast á þeim sem minna mega sín og það er fátt sem kveikir eins hressilegt réttlætisbál í brjóstinu á mér og það! Ég á þetta. Ég má þetta. Allt í nafni hins sálarlausa viðskiptafrelsis. Ég hef stundum rifið mig ofaní rassgat yfir stórfelldu eignanámi útlendinga og fengið spurningar eins og: hvað finnst þér útlendingar eitthvað verra fólk en við? Og afhverju ættu útlendingar ekki að geta farið vel með eignir sínar hér alveg eins og Íslendingar? (og oft bætt við að það séu fullt af Íslendingum sem fari ekki vel með sitt – sem er auðvitað satt og rétt). Ég skal svara þessu. Mér er skítsama þó útlendingar eigi fasteignir hér á landi og litlar landareignir, en þegar kemur að því að eiga stóreflis jarðir og ég tala nú ekki um auðlindir, þá finnst mér það ekki í lagi. Einfaldlega vegna þess sem við vorum að sjá hér í blússandi virkni. Þegar við sjáum ekki afleiðingar gjörða okkar, þegar við erum ekki að umgangast fólkið sem verður fyrir áhrifum af ákvörðunum okkar, þá er svo auðveldlega hægt að taka mennskuna úr sambandi. Allt verður að einhverjum stöfum á blaði,og manneskjur verð að stökum, eða eins og með Gugguna, einhver orð sem Þorsteinn Már mundi óljóst eftir og fannst engin ástæða til að heiðra. Fólkið í Namibíu skiptir hann ekki máli og hann þarf ekki að hitta það eða einu sinni upplýsa sjálfan sig um ástand meginþorra íbúa þar, svo hann gæti kannski í framhaldinu tekið örlitla samfélagslega ábyrgð í gegnum það að fá að leika sér blygðunarlaust með eitt af fjöreggjum þjóðarinnar. Hann borgaði fólkinu sem hann hitti – og það ríkulega – til að fá að stunda gegndarlaust arðrán. Ekkert finnst mér eins svíðandi við þessar upplýsingar og það. Ég verð líka að bæta við að mér fannst fyrstu viðbrögð Samherjamanna er þeir hentu Jóhannesi beinustu leið í gin ljónsins til að kaupa sér smá gálgafrest. Lítilmannlegra gerist það tæplega.


Mér hefur líka verið brugðið að sjá viðbrögð fólks við þessu máli. Ekki það að allir séu ekki fylltir viðbjóði í bergmálshelli mínum, en ég sé alveg gegnum gangandi að fólk treystir því ekki að þetta mál muni hafa neinar afleiðingar fyrir Samherja eða höfuðpaurana þar. Við höfum auðvitað reynslu af því að valdafólk hér á landi hafi komist upp með ýmislegt. Við sjáum þó að ekki stendur á afleiðingum í Namibíu þar sem tveir ráðherrar hafa þegar sagt af sér. Við skulum allavega vona að við verðum ekki öll búin að gleyma þessu í næstu viku og Samherji haldi bara áfram að maka krókinn á þjáningu annarra. Við skulum rétt vona að kjörnir fulltrúar láti þetta ekki leka út í sandinn – eða það sem verra væri, réttlætti þessar gjörðir.


Sko! Ég vil biðja elskulega töfraþyrsta lesendur afsökunar á töfraskorti í dag. Bæði hefur þetta eðlilega valdið hugarangri, auk þess sem ég vaknaði fyrir klukkan fjögur þegar Hugi Hrafn ældi út allt rúmið okkar og miðaldurinn er sannarlega ekki eins fyrirgefandi og yngri ár þegar kemur að svefntilfærslum. Ég ræð ekki vel við slíkt.


Það má því kalla bloggið í dag andblogg út frá yfirlýstu markmiði, en hér er þó töfra að finna: Töfrana sem fólgnir eru í að réttlætiskennd okkar sé misboðið og láta það í ljós. Töfrana sem fólgnir eru í því að verða vitni að ósæmilegri hegðun og krefjast úrbóta. Töfrana sem fólgnir eru í að einhver stígi fram og segi hingað og ekki lengra – og setja fyrir málstaðinn höfuðið að veði.


P.s. Ég lofa að halda mig við skýrari töfra hér eftir (eða nei, ég ætla ekki að lofa því)


p.p.s. Ég komst að því áðan að þið sem hafið skráð ykkur í áskrift að blogginu hafið ekki verið að fá póst, einhversstaðar djúpt inn í stjórnborðinu þurfti að færa til hak og vona ég að þið fáið nú bloggið sent.

84 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page