top of page
Search
Writer's pictureAnnska Ólafsdóttir

Sögurnar frá miðju alheimsins

Magnað að það sé komið að tuttugasta töfrablogginu. Tuttugu dagar í röð. Hér um bil 20.000 orð. Ég hugsa að ég taki 30 blogg til að fylla orðatakmarkið, það þýðir að síðasta bloggið verði 3. desember (held ég alveg örugglega). Í gær var vissum lágpunkti náð. Föstudagar virðast ekkert sérlega góðir dagar til bloggs með tilliti til umferðar, en ég var að flýta mér svo mikið að ég póstaði því ekki inn á Facebook, svo það hafa held ég bara sex manneskjur lesið það. En ég læt það nú ekki slá mig út af laginu og held ótrauð áfram. Að því sögðu, þá er klukkan að nálgast 22 á laugardagskvöldi og ég að blogga. Það gafst bara ekki færi fyrr.



Hverjir skyldu töfrar dagsins vera. Ég er búin að eiga ljúfar og góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Það eru miklir töfrar fólgnir í samveru. Að geta setið saman, jafnvel borðað góðan mat, stundum spilað, skellt í karaókí partý, hlegið, rætt heimsmálin, hugsað saman upphátt um það sem efst er á baugi í lands- og sveitarmálum, stundum rætt hjartansmálin. Ég er iðulega svo mikið á dýptina í samtölum við vini mína að ég tek mér frí frá því þegar hópurinn stækkar. Sem er sennilega ósköp eðlilegt. Mér finnst reyndar oft óþægilegt í fjölmenni og þá oft að þeim sökum hversu yfirborðskennd samskiptin geta verið. Það er ekkert óeðlilegt við það, en oft langar mig bara meira að hitta færri og ræða hluti sem skilja eitthvað eftir sig. En mér finnst líka fínt með fólkinu mínu bara að fá fréttir af ættingjum og vinum sem hinir eru kannski í meiri samskiptum við og mér finnst oft gaman að ræða við Lilló og tengdapabba og aðra sem eldri eru hvernig hlutirnir voru áður.

Ég hef áhuga á sögum, mér finnst gaman að gera mér í hugarlund og reyna að öðlast skilning á því hvað gerir fólk að því sem það er, hvað gerir samfélag að því sem það er, hvað hefur átt sér stað sem gerir það að verkum að þróun verðum með einhverjum hætti. Það er ekkert sem gerist í algjöru tómarúmi og það er ekkert sem stendur alfarið utan orsakasamhengis.


Þegar ég var sem mest að dansa með Gabrielle, sagði hún okkur oft hvað sér leiddust þessar sögur alltaf hreint. Hér værum við með kost á að færa hlutina yfir í dansinn og gætum notað það form til að tjá það sem við þyrftum að tjá. Síðan sagði hún okkur að það virtist alveg sama hversu mikið hún reyndi að loka á þessar sögur og finna þeim annan farveg – það væri bara ekki hægt. Við þyrftum líka að geta tjáð sögurnar sem voru koma upp hjá okkur, svona eins og til að stimpla þær inn í raunveruleikann eða stimpla út úr raunveruleikanum. Spegla okkur í sögunum, og spegla þær í öðru fólki.


Allar þessar sögur sem við segjum okkur og segjum öðrum geta verið svo snúnar. Hvaða sögur er ég helst að segja, hvernig segi ég sjálfri mér og öðrum sögurnar mínar. Hvernig mótar sagan mín þá manneskju sem ég er í dag? Eða öllu heldur sögurnar mínar – því ég er ekki ein saga og stundum upplifi ég mjög sterkt ólíkar hliðar á sömu sögunni. Við erum öll helstu sagnamenn lífs okkar og við er miðja alheims okkar. Mér finnst fyndið þessi skömmun: Hvað heldurðu að þú sért miðja alheimsins eða?! Því þegar allt kemur til alls erum við auðvitað miðja okkar eigin alheims. Við erum útsýnispunkturinn. Innsýnispunkturinn. Ég er ekki að tala um á sjálfhverfan máta í neikvæðasta skilningi þess. Heldur sjálfhverft á barnslegan máta. Við komumst aldrei hjá því að sjá hlutina með okkar augum, sama hversu víðsýn við erum. Við ættum samt öll að vera fær um að samkennd og skilning á aðstæðum og raunveruleika annarra. Til þess þarf bara að kynna sér það.

Við getum mótað mikið hvernig við skilgreinum okkur með sögunum okkar út frá því hvaða viðhorf við höfum til þeirra, til okkar sjálfra og til lífsins. Svo þurfum við líka að skoða helstu hvatamanneskjur og annað slíkt. Ég veit að þetta getur verið erfitt og flókið. Ég veit til dæmis þegar ég hef skoðað sögunar mínar þá hef ég leitað svo mikið af skilningi á því afhverju fólk hefur komið fram með þeim hætti sem það gerði að ég var hreinlega komin með Stokkhólmsheilkenni gagnvart þeim. Það er víst sitthvað skilningur og ábyrgð. Það er göfugt og fallegt að leita skilnings, en það má ekki vera á kostnað þess að við drögum aldrei mörkin einhversstaðar. Til dæmis að skilja mjög vel að áföll og erfiðleikar móti fólk og sleppa því þá að gera kröfu á það að taka ábyrgð á sér. Ég veit að ég er komin út á hálan ís. Ég veit að margir ströggla og gengur stundum vel og stundum ekki svo vel að láta ekki sárin sín blæða yfir fjölskyldu sína og vini og auðvitað ættum við öll að hafa einhvern skerf af umburðarlyndi. En það er líka þannig að sem fullorðnir einstaklingar þurfum við að taka ábyrgð á sjálfum okkur og hegðun okkar. Sögurnar okkar mega ekki verða að hryllingssögum í lífi einhvers annars.



Já blessaðar sögurnar sem eiga heima í öllum flokkum bókmennta og miklu víðar. Þessar mögnuðu, mikilvægu, fyndnu, sorglegu, hryllilegu sönnu og ósönnu sögur sem hlaðast upp í eina manneskju. Ég er stundum að reyna að skilja hver þessi kjarni okkar er sem stendur utan við sögurnar. Mér finnst erfitt bæði að skynja hann og skilja. Hvernig erum við ekki sögurnar okkar? Ég skil að ekkert okkar sé einhver ein saga, það er alltof einhliða og grunnt til að geta staðist. En hvernig erum við ekki allt það sem á daga okkar hefur drifið? Einhverslags summa af eigin lífi.


Hvað sem það varðar þá tek ég ofan fyrir öllum sjálfssögunum og finnst iðulega gefandi og gott að heyra þær og gefandi og gott að vinna með mínar. Sögur um eigið líf eru töfrar dagsins. Líf mitt. Líf ykkar og líf hinna. Sögurnar sem lita líf okkar þeim litum sem við sjáum.

9 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page