Enn einn fallegi dagurinn hér á Ísafirði. Mikið er ég þakklát fyrir þetta góða haust sem við höfum fengið. Þó það sé auðvelt að segja að maður eigi ekki að láta veðrið stjórna líðan sinni, þá finnst mér það ekki alltaf jafn auðvelt á borði og það hljómar í orði. Til dæmis veldur mikill snjór, með vetrarstormi að auki, mér miklum kvíða. Þá upplifi ég mig í lífshættu og finnst ekkert gaman að búa hér norður í rassgati. Ég velti þá fyrir mér hvernig nokkrum datt til hugar að búseta hér gæti verið góður kostur.
En mig langar aðeins að tala um Ísafjörð. Ég er að hlusta á fyrirlestur á netinu undir yfirskriftinni Tilfinningar og líðan með sálfræðingnum Helenu Jónsdóttur. Hann var haldinn í gær í Fræðslumiðstöð Vestfjarða hér á Ísafirði. Mér finnst alveg frábært hvað sálfræðiþjónusta er að verða aðgengilegri hér – þó enn megi gera mun betur í þeim efnum, sérstaklega þá þegar kemur að sálfræðiþjónustu við börn.
Mér finnst alveg magnað hvað það er mikið í boði í þessu litla samfélagi. Flestum finnst eitthvað vanta og er það yfirleitt ekki sami hluturinn, heldur misjafnt eftir þörfum og áhugasviði hvers og eins. En. Ef við horfum til stærðar samfélagsins hljótum við að geta séð hversu gott við höfum það hérna. Það sem upp á vantar getum við sem hér búum beitt okkur fyrir að bæta úr - og þar sem því verður ekki viðkomið er mögulega hægt að bæta upp fyrir með öðrum hætti – eða sækja það annað – eða sætta sig við stöðuna. Búseta hlýtur oft að fela í sér einhverjar málamiðlanir.
Eftir nokkra mánuði verða komin 19 ár síðan ég flutti á Ísafjörð. Vestfirðirnir voru mér ekki framandlegir þar sem ég er að helmingshluta Flateyringur. Ég var líka í Bolungarvík nokkrum sinnum á flakkárunum og ekki má gleyma að á unglingsárunum var ég verðlaunuð fyrir góða hegðun með dvöl í héraðsskólanum í Reykjanesi. Vestfirðirnir hafa alltaf togað í mig og mér fannst ég alltaf finna mig hérna. Þegar ég kom svo á endanum og settist hér að, ætlaði ég ekkert að gera það. Ég hafði ráðið mig í vinnu um sumarið, en var með nokkra mánuði á lausu og fékk að koma til Lillóar frænku og fékk vinnu á Eyrinni sálugu, sem var veitingastaður hér í bæ. Ég hafði þarna á undan verið í Reykjavík í einhvern tíma og einn morguninn fékk ég ógeð á borginni, alveg hreint og klárt, ég var bara komin með nóg. Ég gekk því yfir á bílasölu, keypti mér bíl og keyrði til Ísafjarðar (þetta gerðist náttúrulega ekki alveg kvissbúmmbang, en nánast). Svo þegar líða tók á tímann sem ég hafði úthlutað sjálfri mér til Ísafjarðardvalarinnar þá fór ég að máta þá tilhugsun að búa hér í raun og veru. Það væri mögulega tími til kominn að hætta flakkinu. Hvernig væri að eiga sér heimahöfn og ætli Ísafjörður gæti ekki akkúrat verið sá staður. Kostirnir sem ég sá og mér finnast enn sannir eru til dæmis hversu þægilega stutt er í flesta þjónustu, hversu dásamlega stuttar boðleiðirnar eru ef eitthvað er, hversu fáránlega fallegt er hérna, hversu öflugt og skemmtilegt menningarlífið hérna er – og hvað fólkið hérna er frábært! Þetta síðastnefnda hitti mig strax í hjartastað og ég upplifði fólkið hérna satt og gott – og geri enn. Núna hefur svo bæst við hversu gott börn hérna hafa það með tilliti til aðbúnaðar og allra handa tómstundastarfs. Hver finnst mér svo helsti ókosturinn við Ísafjörð? Því er auðsvarað. Hversu helvíti langt er til Reykjavíkur...og enn lengra til Keflavíkur. Þar sem ferðalög geta tekið á taugarnar langar mig til að mynda ekki að bæta við tveimur akstursdögum í hálku og/eða snjó ef mig langar til útlanda. En ég þori nú varla að skrifa þetta upphátt því þetta er svo svakalega forréttindað. Við höfum verið sérlega heppin að þurfa ekki að sækja mikið af heilbrigðisþjónustu suður, ég býst við að hljóðið í mér væri annað ef svo væri.
Ég ætlaði ekki að fara að skrifa einhverja lofræðu um Ísafjörð þegar ég byrjaði að skrifa. Þetta hefur alveg gerst nokkrum sinnum í bloggskrifunum. Ég legg af stað með einhverja hugmynd og síðan í miðjum klíðum þá öðlast skrifin sjálfstætt vald og fara þangað sem þau vilja fara. Í dag ætlaði ég að fjalla um viðhorf og HAM og tilfinningar út frá fyrirlestrinum hennar Helenu, en það er svo sem eitthvað sem má fjalla um hvenær sem er...og er auðvitað klassískt umræðuefni.
Mér finnst frábært að það sé hér starfrækt sálfræðistofa og þrír (fjórir) sálfræðingar til viðbótar komi hingað allavega mánaðarlega. Mér finnst líka frábært að við sem hér búum skulum nýta okkur þjónustu þeirra, að við viljum heila það sem þarf að heila, bæta það sem má bæta og leita eftir að eiga sem best tilfinningalíf.
Mér finnst Ísafjörður frábær, fjöllin og fólkið og göngustígarnir og menningin og kaffið og Heimabyggð og bókasafnið og bakaríin og Hamraborg og Tjöruhúsið og tónlistarskólarnir og skógarnir og sjúkraþjálfunin og fólkið og listalífið og Hverdagssafnið og Úthverfa og ARtsIceland og barnaskólinn og menntaskólinn og leikskólarnir og sundlaugin í Bolungarvík og allir hinir firðirnir og Vestrahúsið og fólkið og hundarnir og allir göngutúrarnir og þægindin og kaupstaðirnir og Ísafjarðarlognið og bara svo margt. Ísafjörður er töfrar dagsins.
Comments